Göngur og réttir

Göngur hafa hvorki verið miklar né merkilegar í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Göngurnar hafa yfirleitt ekki tekið nema hluta úr degi.

Langholtsrétt stendur í landi Straumfjarðartungu, og var tekin í notkun árið 1956 eftir að Miðhraunsrétt var aflögð. Réttin er steypt, hringlaga, með 15 dilkum og tekur 1800 fjár. Réttin var reist í sjálfboðavinnu og má lesa grein um það frá tímanum hér.

Þverárrétt stendur í hraundrögum suðaustan við túnið á Þverá. Hún var gerð um árið 1855 og er enn í notkun.

Miðhraunsrétt stendur í landi Miðhrauns 1 og 2. Hún er hlaðin úr hraungrýti, var aflögð árið 1955 en hafði þá verið notuð í 200 ár. Leifar hennar sjást enn við hraunjaðarinn.

Hjarðafellsrétt í Réttarskarði er hlaðin rétt, sem enn sést vel.

Heimildir

(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:357-359)

(Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps: 2008-2010)