Samningur um kaup Mílu hf. á Gagnaveitu Eyja- og Miklaholtshrepps var undirritaður þann 16. apríl 2024. Samkvæmt samningnum tekur Míla hf. við rekstrinum frá og með 1. maí 2024.

Míla hf. starfrækir opið net og selur félagið í heildsölu til þeirra fjarskiptafélaga sem veita þjónustu til endanotenda.

Áætla má að sparnaður fyrir íbúa Eyja- og Miklaholtshrepps og aðra notendur ljósleiðarans geti orðið á  bilinu kr. 3.100.000 – 4.000.000 á ári í heildina fyrir afnotagjöld ljósleiðaratenginga, eftir að reksturinn færist yfir til Mílu hf. Afnotagjöld Mílu hf. eru bundin skilyrðum og skilmálum Fjarskiptastofu.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að tryggt og öruggt aðgengi að nútíma háhraðanettengingum í tengingu við ljósleiðara sé mikilvægt byggðamál fyrir íbúa sveitarfélagsins. Mikilvægur liður í því er að sá aðili sem sér um rekstur kerfisins hafi burði og þekkingu til þess að reka slíkt kerfi, ásamt því að geta tryggt að afnotagjöld séu sem lægst á hverjum tíma. Fagnar sveitarstjórn því að með sölunni til Mílu hf. er tryggð lækkun á þjónustugjöldum fyrir íbúa sveitarfélagsins og öðrum notendum á starfssvæðinu. Íbúar sveitarfélagsins sitja framvegis við sama borð og stór hluti annarra íbúa á landsbyggðinni hvað varðar mánaðarleg afnotagjöld ljósleiðaratenginga og mögulegt aðgengi að fleiri fjarskiptafélögum en verið hefur. Þá fagnar sveitarstjórn því að rekstur kerfisins sé framvegis í höndum fagaðila sem kann til verka við rekstur slíks kerfis.

Sigurbjörg Ottesen, oddviti.