viking-ship

Landnám í Eyja- og Miklaholtshrepp

Gátan um fyrstu byggjendur þessa landsvæðis verður að sjálfsögðu aldrei ráðinn en samkvæmt Landnámu voru landnámsmenn á Snæfellsnesi 29 og fjórir þeirra námu land í Eyja- og Miklaholtshrepp.

Sá fyrsti var Sel Þórir Grímsson sem bjó á Rauðamel Ytri en hann nam land allt til Kaldár í Kolbeinsstaðarhrepp.

Þormóður og Þórður gnúpa Oddsynir námu land frá Gnúpá til Straumfjarðarár.

Þórður gnúpa fékk Gnúpudal og bjó þar en Þormóður sem kallaður var goði bjó á Rauðkollsstöðum.

viking-ship

Guðlaugur hinn auðgi er sagður hafa numið land frá Straumfjarðará til Furu í Staðasveit og búið í Borgarholti. Sonur Guðlaugs auðga var Guðleifur, farmaður mikill. Í Eyrbyggju er að finna frásögn af stórkostlegum hrakningum hans vestur um haf þar sem hann á að hafa hitt fyrir Björn Breiðvíkingakappa sem þá var horfin úr landi.

Fyrsta húsfreyjan, sem nafngreind er í Miklaholtshreppi erÞuríður Tungu-Oddsdóttir og bjó hún í Hörgsholti. Var hún dóttir Tungu-Odds á Breiðabólsstað í Reykholtsdal. Landnáma getur hennar sem læknis og mannasættir og væri vert að minning hennar væri í heiðri höfð.

Flestar jarðir í hreppnum koma fram í miðaldaheimildum. Hausthúsa, Fáskrúðabakka, Borgar, Svarfhóls og Höfða er getið í Sturlungu. Hörgsholts er getið í Landnámu þótt jörðin sé ekki landnámsjörð. Hrossholts er getið í Heiðarvígasögu, Grettissögu og Eyrbyggju.

Sumir telja að fyrir landnám hafi hér verið írsk byggð og hafi hún verið séð í friði af hinum norrænu landnemum fram eftir árunum a.m.k.

Þrátt fyrir sagnfæð sína er Miklaholtshreppur, ásamt Eyjahreppi, einn af þeim hreppum landsins, sem fyrstur er nefndur, núverandi nafni sínu. Það kemur fyrir í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, þar sem segir frá illdeilum Órækju Snorrasonar við frændur sína Þórð á Staðastað og Böðvar son hans.

Heimildir

(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:321)

(Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps: 2008-2010:23-24)