Jörðin liggur á láglendinu suðaustast í Miklaholtshrepp. Landið er allt mýrlendi með lágum klapparásum. Tún og hús standa á einum hæsta ásnum eins og nafnið bendir til.
Erfitt er að þurrka mýrina til túnræktar en þó eru sumir hlutar hennar einkum nyrst gott land þegar búið er að þurrka það.
Jörðin er landmikil og þótti góð til vetrarbeitar sauðfjár meðan hún var stunduð.
Í jarðabók Á.M. er Miklaholt eignað eyðiból eður hjáleiga er heitir Minni-Laxárbakki vestan ár norðan þjóðvegar. Sjást þar rústir.
Varp og veiði öll í Tjaldurseyjum til heyrði jörðinni, en var undanskilið er ríkið seldi hana og er það nú sjálfstæð ríkiseign.
Jörðin var prestssetur og kirkjujörð um aldur. Sveitin ber nafn af henni. Sóknarkirkjan var færð þaðan að Fáskrúðarbakka 1935. Síðar var reist þar kapella af velunnurum staðarins. Ítök átti Miklaholt allvíða, en þau eru nú aflögð.
Heimildir:
Byggðir Snæfellsness 1977 bls 306
Loftmynd Mats.is
Gyða Valgeirsdóttir