Almannavarnanefnd Vesturlands, ásamt fulltrúum Lögreglustjóraembættisins á Vesturlandi, fundaði með sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og almannavörnum þriðjudaginn 21. janúar sl. vegna aukinnar jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Mýrum sem er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi.
Á fundinum fengu fulltrúar í Almannavarnarnefnd Vesturlands góða kynningu á stöðu mála og fengu viðbrögð við þeim vangaveltum sem á fulltrúum landshlutans brunnu.
Fram hefur komið að greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna ekki mælanlega aflögun á yfirborði en engu að síður í ljósi aukinnar virkni og vísbendinga um kviku innskot á talsverðu dýpi hefur Veðurstofan hækkað vöktunarstig sitt í umhverfi Ljósufjalla.
Almannavarnarnefnd mun nú í kjölfar fundarins fara yfir málin með fulltrúm almannavarna og uppfæra viðbragðsáætlanir sínar þó svo að ekki sé talin hætta á ferðum a.m.k. að svo stöddu.
Stefnt er að því að halda upplýsingafund með aðkomu náttúruvársérfræðinga og almannavarna um miðjan febrúar og verður hann auglýstur frekar þegar nær dregur ásamt því sem stefnt er að því að geta streymt fundinum.
Sjá hér hlekk á frétt af vef Veðurstofu Íslands um aukna jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn:
https://www.vedur.is/um-vi/frettir/jardskjalftavirkni-vid-grjotarvatn-aukist-undanfarna-manudi
Almannavarnanefnd Vesturlands