Gröf er landlítil jörð og liggur miðsvæðis í tungu neðan þjóðvegar á milli ánna Kleifár að vestan og Laxár að austan og sunnan. Mestur hluti landsins er mýrlendi. Þó er allmikið móaland á neðanverðu Grafarholti. Jörðin á lítilsháttar laxveiði í Laxá. Jörðin hefur lengi verið í einkaeign.

Ábúandi árin 1896 til 1928 var Halldór Bjarnason með konum sínum. Fyrst Þuríði Jónsdóttur frá Elliða, uns þau slitu samvistir og síðan Þórunni Sigurðardóttur. Halldór veiktist snögglega veturinn 1928 og dó eftir skamma legu 23. febrúar það ár.

Halldór var um mörg ár póstur frá Gröf til Ólafsvíkur. Hann átti alltaf gæðinga sem hann notaði í póstferðirnar. Hann var hreppstjóri sveitarinnar í nokkur ár og sat einnig í hreppsnefndinni langan tíma og var oddviti hennar alllengi.

Halldór átti fjögur börn með fyrri konu sinni og eina dóttur, Unni, með Þórunni. Eldri börnin fluttu til Reykjavíkur, nema Jóhanna sem lengi var húsfreyja á Eiðhúsum.

Þórunn, ekkja Halldórs, hélt áfram búskap í Gröf eftir lát Halldórs til ársins 1933. Hún hafði vinnumenn sér til aðstoðar við búskapinn. Þórunn átti tvö börn. Það eldra var Sigurður Ellert Ólason. Hann var sonur Óla bónda á Stakkhamri. Sigurður var kominn í menntaskóla í Reykjavík þegar stjúpi hans lést. Hann var því ekkert við búskapinn með móður sinni eftir það. Dóttirin, Unnur var um fermingaraldur, þegar faðir hennar lést. Hún var alla tíð með móður sinni í Gröf meðan báðar lifðu.

Árin 1932 til 1933 bjó í Gröf í sambýli við Þórunni, Guðmundur Pétursson. Hann hætti eftir eins árs búskap og flutti á Akranes. Guðmundur var bróðir Helga, sem giftist Unni Halldórsdóttur og bjó lengi í Gröf.

Vorið 1933 giftist Unnur Helga Péturssyni, bifreiðastjóra frá Borg. Helgi var sonur Guðnýjar, sem lengi var vinnukona á Borg og Péturs Helgasonar, manns hennar, sem einnig var vinnumaður á Borg alllengi. Helgi tók við búskapnum í Gröf af tengdamóður sinni og Guðmundi bróður sínum. Þórunn var þó áfram á heimilinu meðan hún lifði svo sem fyrr segir.

Búskapurinn var ekki aðalstarf Helga. Hann hafði ungur eignast fyrsta bílinn (vöruflutningabíl), sem kom í sveitina, árið 1928. Hann stundaði akstur alla tíð eftir það. Hann fékk sérleyfi til fólksflutninga úr Borgarnesi á sunnanvert Snæfellsnes strax og reglur um það tóku gildi 1935 til 1936. Fyrst var endastöðin Vegamót, síðar Ólafsvík.

Seinna var sérleyfið frá Ólafsvík til Akraness og enn síðar frá Ólafsvík til Reykjavíkur. Hann hóf einnig flutninga á mjólk úr sveitum sunnanfjalls á nesinu í Borgarnes í stríðsbyrjun 1939 eða litlu fyrr. Miklhreppingar og Staðsveitungar hófu þó mjólkursölu síðar eða 1943 til 1945. Helgi hafði til þessara flutninga svokallaðan hálfkassabíl. Fremst á grind bílsins var hús með bekkjum í (sætum) fyrir sex manns, en aftan við það var vörupallur til flutninga á vörum. Sigurður Brynjólfsson, Mýramaður að ætt, var lengi bílstjóri á mjólkurbílnum. Sigurður var um margt einstakur maður og sérkennilegur. Sérlega minnugur var hann og greiðasamur. Erlendur Halldórsson hefur ritað nokkuð um hann og þessi mál í bókina “Byggðir Snæfellsness”. Sigurður var mjólkurbílstjóri til ársins 1957.

Helgi í Gröf braut blað í samgöngumálum sveitanna sunnan fjalls á Snæfellsnesi. Mörg síðustu ár hafa “Sérleyfisbifreiðir Helga Péturssonar” haft allar áætlunarferðir á Snæfellsnesi bæði sunnan og norðanvert nesið.

Þegar umsvif Helga í sérleyfisrekstrinum jukust mikið á 6. áratugnum flutti hann höfuðstöðvar sínar til Reykjavíkur. Frá árinu 1958 dvöldu þau hjónin í Reykjavík að jafnaði, þó þau ættu alla tíð heimili í Gröf. Þau eru nú bæði látin. Börn þeirra eru fimm, öll búsett í Reykjavík og starfa við bílaútgerðina, nema yngsti sonurinn, Ásgeir, sem er búsettur í Ástralíu.

Búskapur Helga í Gröf var aukaatriði hjá honum og fór minnkandi eftir því sem árin liðu og segja má að nær enginn búskapur hafi þar verið frá árinu 1956. Búskaparafnot jarðarinnar hafa verið frá þeim tíma leigð bændunum á Borg.

Árið 1957 flutti Karl Ásgrímsson frá Borg á jörðina og leigði þar íbúð. Hann tók þá við af Helga og annaðist mjólkur- og vöruflutninga fyrir sveitirnar. Karl hafði þá flutninga á hendi í nokkur ár eða til ársins 1971. Karl var dugnaðarforkur og rækti vel starf sitt. Hann sá um nær alla efnisflutninga til byggingar Laugargerðisskóla, sem stóð yfir árin 1960 til 1965. Kona Karls var Sigríður Gústafsdóttir úr Reykjavík. Þegar Karl hætti flutningunum flutti hann með fjölskylduna til Reykjavíkur og hefur verið leigubílstjóri þar.

(innsk. Karl tók við akstrinum 1957 en bjó á Borg fyrstu árin en flutti 1. maí 1960 að Gröf og bjó þar til 1. maí 1967).

Arftaki Karls í Gröf varð Ingólfur Gíslason frá Mýrdal. Hann tók að sér flutninga þá, sem Karl hafði haft. Kona Ingólfs var Björk Gísladóttir frá Álftavatni í Staðarsveit. Þau voru í Gröf í fimm ár, en fluttu að því búnu að Flesjustöðum í Kolbeinsstaðahreppi og hófu þar búskap.

Um þetta leyti var kælingu mjólkur breytt og rafkælar keyptir og teknir í notkun í stað vatnskælingar á öllum bæjum. Við þá breytingu varð að nota tankbíla til að flytja mjólkina. Það var vart á færi einstaklings að eiga slíkt tæki. Kaupfélag Borgfirðinga yfirtók þá bæði mjólkurflutninga og vöruflutninga þeirra sveita, sem Karl og Ingólfur höfðu áður þjónað á sviði mjólkur- og vöruflutninga.

Eftir þetta hafa bílstjórar haft aðsetur í Gröf, sem ekið hafa sérleyfisbifreiðum Helga Péturssonar.

Hér endar samantekt Gunnars. Sérleyfisbifreiðar Helga Péturssonar ehf fóru sína síðustu sérleyfisferð á Snæfellsnes 15. október 2001 og breyttist þá nýting íbúðarhússins og jarðarinnar einnig eftir að hefðbundnum búskap lauk á Borg.

Árið 2005 keypti jörðina Valgarð S. Halldórsson (sem er þá 4. ættleggurinn frá Halldóri Bjarnasyni) og nýtir húsakostinn til helgardvalar og frístunda. Tún hafa frá þeim tíma verið nytjuð af bændum í Hömluholti.

Heimildir

Gunnar Guðbjartsson, Hjarðarfelli (í handriti).

Loftmynd Mats.is

Ábúendur: 

Valgarð S. Halldórsson

Húsið á Gröf