Í landleit

Núverandi ábúendur, hjónin Guðríður Pétursdóttir og Guttormur Sigurðsson, ásamt ungri dóttur Guðríðar, Önnu Sigríði Árnadóttur, komu haustið 1989, akandi frá Reykjavík hingað vestur á Snæfellsnes í landaleit.

Þegar þau komu vestur fyrir hið tignarlega Hafursfell, blasti við þeim ægifögur sýn í sólbirtu dagsins. Á vinstri hönd spegilsléttur sjór er teygði sig til eilífðarinnar en á hægri, listilega og margbreytilega formuð fjöll með Snæfellsjökul fyrir endann. Á milli, grösugar brekkur, mýrar, holt fagurgræn tún og bændabýli á dreif eins og til skrauts. „Já hérna sést á jökulinn. Við þurfum ekki lengra“, sagði Guðríður. Það passaði líka ágætlega að taka beygjuna og aka upp afleggjarann til hægri í átt að bænum í Miklaholtsseli.

Þótt ekki hefðu þessir nútíma landnemar notað öndvegissúlur, beitt göldrum eða annarri fornri landnámstækni, er tengdist forlögum, fannst þeim samt eins og dulin öfl hefðu hönd í bagga um staðarval o.fl. Og kannski vegna duttlunga þessara afla urðu þessir nýju ábúendur í Miklaholtsseli að bíða í eitt ár enn þangað til farangri þeirra og farteski var endanlega skipað upp á hlaðinu í „Seli“, en það var haustið 1990.

Vorið eftir reyndist sérlega gæfuríkt en þá fæddist sonurinn Sigurður Páll Guttormsson.

Tíminn hefur liðið

Mikið vatn hefur runnið úr Hafursfelli til sjávar síðan þetta var. Skemmst er frá því að segja að enginn hefðbundinn búskapur hefur verið stundaður af umræddri fjölskyldu í Seli. Stórir traktorar hafa því ekki orðið framatákn ábúenda, eins og víða annarsstaðar í sveitum.

En ekki er þó allt sem sýnist í búskaparefnum. Í hlíðum Hafursfellsins og einnig niðri á láglendi jarðarinnar hafa, fyrir atbeina ábúenda, fest rætur tugi þúsunda af litlum, ört stækkandi landnemum úr jurtaríkinu.

Ábúendur gerðust skógarbændur. En til að vera skógarbóndi þarf aðalega fernt, land, girðingar, vinnu og hugsjón og af öllu þessu er nægjanlegt í Seli.

Um skógræktarhugsjón

Lerki ættað frá Altai-héraði í Rússlandi, stafafura, ösp og sitkagreni frá Alaska, hafa gerst félagar íslenska birkisins í gegnum bændaskógrækt í Seli. Í hugsjón skógræktarmanna er alheimshyggjan ríkur þáttur, - að það skipti ekki máli hvaðan, menn, tré eða aðrar lífverur koma. Þær stefna jú allar að sama marki og þurfa að halda tengslum sínum órofnum í vitundarlegri og líffræðilegri framþróun sinni. Óþarfa sundurgreining manna á lífverum eftir þjóðernum, ætt eða uppruna byggist á þröngsýni og fordómum. Lerkiplöntu er líka nákvæmlega sama hvort hún spratt upp af fræi, á nýjum stað, með hjálp fugla eða manna og breytir þar engu álit náttúru- eða skipulagsfræðinga, sem hafa í raun miklu minni þekkingu á lífríkinu og lögmálum þess en umrædd lerkiplanta.

Skógræktarfólk veit að náttúran er óstöðvandi í þróunar- og breytingarferlum sínum. Þannig uxu einu sinni eikartré á Fljótsdalshéraði og hjartardýr ráfuðu á beit á Vestfjörðum. Steingervingar vitna um það.

Hugsjón skógræktrarfólks er að hjálpa lífríkinu að eflast í þróun sinni frá vitundarlega og lífræðilega lágþróuðum lífverum í átt til vitundarlega og lífræðilega háþróaðri lífvera. Segja má að sumt skógræktarfólk sé andlega tengt lífríkinu, en það er líka eina leiðin til að skynja og skilja að öll tré og aðrar jurtir hafa ekki aðeins nýtingargildi heldur líka sitt eigið tilvistargildi.

Að flokka jurtir í íslenskar og erlendar eftir því hvenær þær tóku sér bólfestu á Íslandi eru hjávísindi er tengjast þjóðernislegum dulhyggjukreddum, svipuðum og nasisminn spratt upp af.

Það skaðar kannski ekki marga þótt einhverjir smíði að gamni sínu trúarlegar kreddur sem skipta íslensku lífríki í annarsvegar erlendar og hinsvegar íslenskar plöntur, en þegar krafist er að stjórnvöld taki mark á slíkum kreddum og í nafni þeirra eru framin skemmdarverk á aldargömlum barrtrjáreit á Þingvöllum, þá er ástæða til að huga að meiri og betri uppfræðslu í náttúrufræðum á Íslandi.

Nánar um hagi og störf ábúenda

Guðríður hefur stundað kennslu í ýmsum grunnskólum en er nú hætt kennsl. Hún er einnig menntuð sem LCPH hómópati og hefur um langan tíma aðstoðað fólk í hverskyns veikindum.

Jafnframt skógrækt, svolitlu starfi í skólum og ýmislegri vinnu, þá hefur Guttormur sinnt frumkvöðlastarfi er snýst um tilraunir við að framleiða byggingarefni úr leir og öðrum jarðefnum á Snæfellsnesi.;

Anna Sigga og Siggi Palli fóru menntaveginn. Anna Sigga er útskrifuð sem stjarneðlisfræðingur með doktorsgráðu og býr í Svíþjóð og Siggi Palli stundar nám í byggingaverkfræði við Háskóla Reykjavíkur.

Frekari fróðleikur

Fyrir þau sem vilja fræðast um fyrri ábúendur og sögu jarðarinnar Miklaholtssels, er bent á bækurnar Byggðir Snæfellsnes, útgefin 1977 og Eyja- og Miklaholtshreppur ( í flokknum Snæfellingar og Hnappdælingar) útgefin 2000.

Heimildir

Loftmynd Mats.is

Ábúendur: 

Guðríður Pétursdóttir og Guttormur Sigurðsson

Miklaholtssel
Guttormur og Guðríður