• Eyja- og Miklaholtshreppur

    Eyja- og Miklaholtshreppur

  • Eyja- og Miklaholtshreppur

    Eyja- og Miklaholtshreppur

  • Eyja- og Miklaholtshreppur

    Eyja- og Miklaholtshreppur

  • Eyja- og Miklaholtshreppur

    Eyja- og Miklaholtshreppur

  • 1
  • 2
  • 3
  • 4

Á dögunum hlutu sveitarfélögin á Snæfellsnesi platínu-umhverfisvottun EarthCheck fyrir frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum tíu ár í röð. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að ákvörðun var tekin um að standa vörð um umhverfið á Snæfellsnesi með því að framfylgja alþjóðlegum umhverfisstaðli EarthCheck. Umhverfisvottunarverkefnið er fjölþætt. Að því koma mjög margir aðilar enda er öflugt samstarf og þekking lykillinn að árangri. Bætt frammistaða á ýmsum sviðum og viljinn til að gera enn betur með skýrum og skráðum markmiðum skiptir mestu máli. Það er einmitt starf á þeim grunni sem færir okkur vottunina.
En í hverju birtist umhverfisstarf Snæfellinga? Allt frá 2003 hafa sveitarfélögin haldið til haga upplýsingum um auðlindanotkun og sorpmál á svæðinu. Tæpur helmingur af öllu sorpi á Snæfellsnesi fer í endurvinnslu (47,6% árið 2018). Að koma sorpi í réttan farveg er samvinnuverkefni allra íbúa og fyrirtækja. Um helmingur allra hreinsiefna sem sveitarfélögin kaupa eru með viðurkennd umhverfismerki og nær allur pappír er umhverfismerktur. Margvíslegar aðrar upplýsingar gefa okkur innsýn í stöðu svæðisins og hjálpa okkur við að setja mælanleg markmið. Sem dæmi um önnur verkefni má nefna að síðastliðin ár hafa sveitarfélögin unnið að því í samstarfi við hagsmunaaðila að bæta aðgengi ferðamanna að víðförulustu áningarstöðum Snæfellsness. Það skiptir miklu máli að viðhalda vinsælum viðkomustöðum, gæta náttúru þeirra og tryggja að gestir fái að njóta þeirra. Síðast en ekki síst má nefna frábært starf skólanna á Snæfellsnesi þar sem umhverfismál eru í öndvegi og börnin njóta góðs af. Nokkrir skólar eru þátttakendur í Grænfánaverkefni Landverndar sem eflir umhverfisvitund yngri kynslóðarinnar. Börnin eru framtíðin og það er okkar hlutverk að sýna þeim í verki að umhverfið skiptir lykilmáli.
Við Snæfellingar nýtum platínu-viðurkenningu EarthCheck sem hvatningu. Við erum staðráðin í að halda góðri vinnu áfram og gera enn betur!