Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps
Formaður
Þröstur Aðalbjarnarson, bóndi
Stakkhamri, Eyja- og Miklaholtshrepp
Sími: 435-6770 Farsími: 847-8985
Netfang: kolskor@simnet.is
Saga Búnaðarfélagsins 1868 til 1952
Þann 26. júní árið 1868 var stofnað sameiginlegt búnaðarfélag fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp. Það hét í fyrstu ,, Búnaðarverðlaunasjóður Eyja- og Miklaholtshreppa”. Árið 1870 er það nefnt Jarðbótafélag og heitir svo fram undir 1890, en þá voru samþykkt ný lög fyrir félagið og félagið þá nefnt ,,Búnaðar- og jarðbótafélag Eyja- og Miklaholtshreppa.
Þetta var fyrsta félag sem var sett á laggirnar í Miklaholtshreppi. Áratugir liðu þar til ný félög tóku þar til starfa. Stofnendur félagsins voru fimm bændur úr Eyjahrepp og fjórir úr Miklaholtshrepp.
Á aðalfundi 1873 var í fyrsta sinn úthlutað verðlaunum úr jarðbótasjóðnum og hlutu þau fimm bændur í Miklaholtshreppi. Að mestu voru verðlaunin fyrir túnsléttun og túngarðahleðslu.
Jóhann Elíasson í Hrísdal – Fjórfjöld verðlaun, eða 16 ríkisdali, sem mun hafa verið stórfé á þeirra mælikvarða.
Þórður Hreggviðsson á Miðhrauni – Einföld verðlaun, eða 4 ríkisdali.
Halldór Guðmundsson í Miklaholtsseli – Einföld verðlaun, eða 4 ríkisdali.
Verðlaunum var útbýtt fyrir jarðbætur til ársins 1923.
Fyrsta ræktun, eða túnsléttun, í Miklaholtshreppi, sem sögur fara af, var raunar gerð réttum hundrað árum fyrir stofnun búnaðarfélagsins. Þar var að verki Eggert Ólafsson, Hofsstöðum, skáld, hugsjónamaður og brautryðjandi.
Félaginu var á aðalfundi 1. júlí 1891 skipt í tvö búnaðarfélög.
Sr Árni Þórarinsson var kosin formaður nýja Búnaðarfélagsins í Miklaholtshrepp. Fundagerðir Búnaðarfélags Miklaholtshrepps glötuðust með einhverjum hætti allt til ársins 1915 og lítið sem ekkert er vitað um störf félagsins eða viðgang á því tímabili og hverjir fóru með stjórn.
Þess má geta að um þetta leiti voru hestakerrurnar að koma til sögunnar. Hjörleifur Björnsson á Hofsstöðum var fyrstur manna til að eignast slíkt tæki hér í hrepp.
30. mai 1917 gekk Búnaðarfélag Miklaholtshrepp í Búnaðarsambandið.
Á fundi 28. janúar 1929 bar Guðbjartur á Hjarðarfelli fram tillögu um kaup á dráttarvél með Búnaðarfélagi Eyjahrepps. Var hún samþykkt með meirihluta atkvæða og stjórninni falið að ganga frá kaupunum.
Í fundagerðabókum frá 1932 og 1934 sést að rekstur þessarar nýju dráttarvélar hefur gengið erfiðlega og á fundi 3. mars 1934 var samþykkt að selja hana ef um einhverja möguleika væri að ræða með sölu.
Á aðalfundi búnaðarfélagsins 1944 flutti Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli tvær merkar tillögur sem báðar voru samþykktar í einu hljóði.
1. Hann skoraði á Búnaðarsamband Dala- og Snæfellsness að athuga möguleika á að fá hentuga gerð af skurðgröfu til framræslu á sambandssvæðinu á næstunni. Enn fremur taldi fundurinn brýna nauðsyn bæri til að fá nýja dráttarvél (beltadráttarvél, eða það sem við nú nefnum jarðýtu).
2. Hann taldi brýna nauðsyn bera til að auka túnrækt og taldi rétt að stefnt yrði að því að koma upp 500 hestatúni á hverju býli á landinu á næstu tíu árum.
Jarðýta kom hér fyrst í vinnu árið 1946. Fyrsti stjórnandi hennar var Hjörleifur Sigurðsson, bóndi í Hrísdal.
Skurðgrafa hóf svo störf hér árið 1948.
Félagið hefur alltaf leitast við að halda við og heldur að auka verkfæraeign sína og miðað við þau tæki sem helst mátti ætla að hægt væri að nota á félagslegum grundvelli. M.a má nefna steypuhrærivélar, áburðardreifara fyrir húsdýraáburð, plóg og loftpressu sem Búnaðarfélagið keypti í samvinnu við Búnaðarfélag Staðarsveitar. Síðast en ekki síst skal telja votheysgryfjumót sem félagið keypti 1952.
Þess má geta að ræktun er dýr hér í sveit því næstum öll ræktun er í blautu mýrlendi sem ræst hefur verið fram.
Heimildir
(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:117-121)