Ljósufjöll eru hæstu fjöll á Snæfellsnesi fyrir utan Snæfellsjökull, 1063m. Þau eru að mestu úr súru bergi, sem hefur myndast við gos undir jöklum síðasta jökulskeiðs.
Ljósufjöll standa fyrir ofan bæina Miðhraun, Minni-Borg og Borg í Eyja- og Miklaholtshrepp Að sunnan líkjast þau þrem píramídum, ljósum á lit (líparít), gróðurlaus og fannalaus að sunnan en norðan í þeim er sísnævi.
Eyja- og Miklaholtshreppur liggur við virkt eldstöðvakerfi kennt við Ljósufjöll og bera nýleg hraun á svæðinu og nágrannasveitum þess vitni. Síðustu eldsumbrot á svæðinu munu hafa verið fyrir 1100 árum en ómögulegt er að spá fyrir um hvenær eldvirkni mun taka sig aftur upp í Ljósufjöllum þó svo að slíkt þyki ekki líklegt miðað við aðrar eldstöðvar á Íslandi. Heimild: Veðurstofa Íslands: Halldór Geirsson.
Ljósufjallaþyrpingin er einstaklega merkileg frá jarðfræðilegu sjónarmiði, en fjallaþyrpingin sem er um 90 km löng teygir sig frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í austri í VNV-ASA stefnu. Miðja hennar er í Ljósufjöllum. Á nútíma hefur þyrpingin gosið 23 sinnum.
Heimildir
(Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps: 2008-2010:14)
Ljósmynd: Bryndís H Guðmundsdóttir