Löngu áður en uxinn, eða aðrir landvættir er vöktuðu Snæfellsnes, sáu til ferða Steins mjögsiglanda Vígbjóðssonar, bróður hans Þóris haustmyrkurs, eða annarra landnámsmanna er námu land á Snæfellsnesi léku eldspúandi eldvörp og skriðjöklar með hjálp veðra og vinda sér að því að búa til landslagið sem fyrrgreindir landnámsmenn sáu og hrifust að og ákváðu að setjast að og kölluðu góða landkosti.

Eyja- og Miklaholtshreppur var þá ekki til. Algerlega óskapaður í menningarsögunni.

Það fólk sem kom þannig siglandi af hafi, í upphafi þjóðveldistímans, og settist að á þessu landsvæði umrædds sveitarfélags, hefur sennilega ekki verið ólíkt af eigindum og atgervi núverandi Eyja- og Miklhreppingum.

Þannig hefði Þórdís Svarthöfðadóttir, er settist að í Borgarholti með manni sínum, Guðlaugi hinum auðga, vel getað verið formaður kvenfélagsins Liljunnar, ef flutt til nútímans.

Guðlaugur maður hennar hefði einnig sómað sér vel sem oddviti hreppsins í nútíðinni. Kannski þó ekki ríkt um hann mikill friður, því í Landnámu er því lýst að hann hafi séð „að Rauðamelslönd voru betri en önnur suður þar í sveit“.

Í kappsemi skoraði þessi innrásarvíkingur ábúanda Rauðamels á hólm. Hefði tengdamóðir hans, Þuríður Tungu-Oddsdóttir, ekki komið vitinu fyrir hann og grætt þá báða, helsára eftir mislukkaða hólmgöngu, hefði saga hans orðið öllu styttri og ættfaðir hinna frægu Sturlunga, Sturla Þórðarson, hefði aldrei fæðst.

Eftir hólmgöngu og sættir, nam Guðlaugur land frá Straumfjarðará að Furu, á milli fjalls og fjöru og settust þau hjónin þá að í Borgarholti, eins og áður er sagt.

Og ekki er það nýtt að ættmenni raði sér í nábýli hverjir við aðra. Þannig bjó faðir Guðlaugs, Þormóður, á Rauðkollsstöðum, bróðir hans, Þórður Gnúpa, í Gnúpudal og afkomendur þeirra röðuðu sér enn þéttar í tímans rás.

Kona Þormóðar hét Gerður, dóttir Kjallaks hins gamla. Kjallakur er keltneskt nafn.

Svarthöfði, eiginmaður Þuríðar Tungu-Oddsdóttur, var sonur Bjarna gullbera.

Ekki hefðu auðæfin, sem þessir fyrstu landnámsmenn fluttu með sér, sbr. viðurnefni, dugað þeim til bjargar, ef landið hefði ekki verið gjöfult, bæði til lands og sjávar.

Eyja- og Miklaholtshreppur er í raun endurnýjað sveitarfélag, samsett úr tveimur fornum hreppum, eins og nafnið ber með sér og liggur það á sunnanverðu Svæfellsnesi.

Nánar um mörk sveitarfélagsins vísast til korts hér á síðunni, en gróflega markast þau af Haffjarðará, Höfðaá og Arná að austan, vatnaskilum á fjallgarðinum að norðan, Kerlingu, Bauluvallarvatni og Ytra Lágafellslandi að vestan og enda við sjó rétt vestan við Stakkhamra.

Sveitarfélagið tilheyrir Norðvesturkjördæmi. Að flatarmáli er það 383 km2.

Til samanburðar er borgarland Reykjavíkur aðeins 274 km2, svo Eyja- og Miklaholtshreppur er mun stærra sveitarfélag og býr trúlega yfir miklu verðmætari landkostum. Sérstaklega þegar metin eru gæði óspilltrar náttúru.

Íbúatalan er þó talsvert lægri en höfuðborgarinnar, eða aðeins 139. Það kann þó hratt að breytast nú með breyttu gildismati.

Athyglisvert er að fleiri atvinnugreinar, en hefðbundinn landbúnaður, eru hægt og býtandi að þróast í sveitarfélaginu.

Erlendum nýbúum hefur líka verið að fjölga og eru þeir nú 25 að tölu, af Eistlenskum, Litháenskum, Mongólskum, Pólskum og Þýskum þjóðernum. Kannski er nýtt landnám hafið af fólki sem þarf enn að flýja óðul sín og ættlönd, eða sér mikla möguleika í sveitinni í auknum lífsgæðum í tímans rás.

Saga svæðisins greinir ekki mikið frá brennum, fjöldavígum eða öðrum slíkum sögulegum atburðum sem spennuþyrstir lesendur fornsaganna sækjast eftir og flokka sem hetjudáðir.

Hinsvegar er meir um andleg afrek friðarsætta, viturs og dulræns fólks sbr. söguna af Þuríði. Seinni tíma sögur greina frá mörgu fólki sem hafði dulrænar gáfur og lét samborgara sína njóta þess á ýmsan hátt.

Enn er til fólk í þessari sveit sem metur mest „áhrifanna frá Jöklinum“ af öllum náttúrugæðum svæðisins. Hin andlegu og duldu öfl eru vissulega ein víddin í sköpunarverki því sem við köllum Eyja- og Miklaholtshrepp.

Guttormur Sigurðsson, Miklaholtsseli