Verbúðir og verslanir.

Úr Skógarneshólma eða Hólma hefur verið útræði frá ómunatíð enda stutt á fengsæl fiskimið. Um aldamótin 1500 var þar stærsta útver á þessum slóðum með sjö verbúðum. Er svo allt fram eftir 1714 en um miðbik þeirra aldar eru þær orðnar fimm. Verbúðirnar voru á Búðarhólma þar sem tvö verslunarhús risu síðar.

Upp úr árinu 1890 hefjast reglubundnar skipaferðir með fólk og flutninga frá Reykjavík í Skógarneshólma. Skömmu síðar fara að koma þangað lausakaupmenn með vörur sínar. Það var hins vegar verslun Tanga og Riis í Stykkishólmi sem reið á vaðið með byggingu verslunarhúss í Skógarnesi. Sú verslun átti mikil viðskipti við Hnappdælinga um langt árabil. Með tímanum og gerð vegar frá Borgarnesi og vestur um Mýrar alla leið í Hnappadal breyttist verslunarmynstrið á þann veg að menn fóru í vaxandi mæli að versla í Borgarnesi.

Engu að síður var verslun í Skógarnesi fram til ársins 1934 en það árið voru í Skógarnesi eftirtalin hús:

Verslunarhús (voru tvö um tíma)

Sláturhús (byggt árið 1916)

íbúðarhús, fjós og hlaða (byggt árið 1918)

Eftir að verslunin hætti voru mannvirkin seld. Verslunarhúsið var tekið niður og flutt að Hömluholtum, þar sem það var endurbyggt sem íbúðarhús. Það hús brann árið 1965.

Íbúðarhúsið var endurbyggt að Vegamótum og notað þar sem veitinga- og gistihús. Var það fyrsta húsið sem þar var reist, og stóð lengi austast í húsaröðinni þar í lítt breyttri mynd en er nú horfið.

Sláturhúsið var flutt að Ytra Rauðamel og reist þar að nýju sem fjós og hlaða.

Grunnar þessara húsa sjást enn í Skógarnesi og segja til um staðsetningu þessara mannvirkja.

Heimildir

Menningarminjar í Eyja- og Miklaholtshreppi skýrslur Fornleifastofnunar, kaalund 2, byggðir Snæfellsness og Reynir Ingibjartsson.