Kirkjur og kirkjugarðar í Eyja- og Miklaholtshrepp
Talið er líklegt að jarðir þar sem guðshús voru hafi byggst á 11. öld. Sóknarkirkjur voru í Haffjarðarey og Miklaholti. Haffjarðarey fór í eyði árið 1563 og var þá reist lítil kirkja í Hrossholti, en árið 1570 var byggð sóknarkirkja á Ytri Rauðamel.
Kirkjur hreppsins í dag eru Rauðamelskirkja, Miklaholtskirkja og Fáskrúðabakkakirkja sem jafnframt er sóknarkirkja hreppsins.
Fáskrúðsbakkasókn
Fáskrúðsbakkasókn og Rauðamelssókn voru formlega sameinaðar 1997 undir fyrrgreinda nafninu.
Sóknarprestur
Sr. Guðjón Skarphéðinsson
Netfang: srgudjon@centrum.is
Sími: 4356729
Sóknarnefnd
Formaður
Sigurbjörn G. Magnússon
Ritari
Gyða Valgeirsdóttir
Gjaldkeri
Halla Guðmundsdóttir
Saga Rauðamelskirkju (1886)
Í rúmlega fjórar aldir hefur kirkja Eyhreppinga staðið á Rauðamel ytri.
Núverandi kirkja var byggð árið 1886 og var vígð 10. október sama ár.
Hún er byggð úr timbri og er 5,73 m að lend og 5,60 m á breidd. Hana smíðaði Jóhannes Jónsson sem bjó við Suðurgötu í Reykjavík. Hann var kirkjusmiður mikill og gáfumaður mesti.
Fornt kirkjusetur á Rauðamel ytri var endurvakið árið 1570 og hin forna kirkjusókn Haffjarðareyjar lögð til hennar. Rauðamelskirkja var útkirkja frá Kolbeinsstöðum til 1645 og síðan frá Miklaholti.
Saga Miklaholtskirkju
Bærinn Miklaholt er kirkjustaður og fyrrum prestssetur í Miklaholtshreppi. Elsti máldagi kirkjunnar er líklega frá 1181.
Þegar Miklaholtskirkja var að falli komin upp úr 1930, Sýndist meirihluta sóknarfólks það ráðlegt að ný sóknarkirkja yrði reist þar sem hún væri nokkuð miðsvæðis í hreppnum og kom þá Fáskrúðabakki fyrst til greina, enda þá fyrir löngu byggt þar þinghús við þjóðveginn (1913). Kirkjan, sem nú stendur á Fáskrúðabakka, var vígð 1936 og Miklaholtskirkja lögð af.
Mörgum féll þessi ráðstöfun illa, svo að Magnús Sigurðsson, bóndi í Miklaholti hafði forgöngu fyrir byggingu kirkju úr steinsteypu 1945. Hún var vígð 28. júlí 1946. Turninn og forkirkjan voru reist 1961. Kristján Gíslason var yfirsmiður.
Í kirkjunni eru margir góðir gripir. Altari og prédikunarstóll eru úr gömlu kirkjunni og ýmsir gripir frá 18. öld. Númeratöfluna gerði líklega Sölvi Helgason 1844. Hún er í vörslu sóknarprests.
Kurt Zier gerði altaristöfluna og á skírnarskánum er mynd eftir Ragnar Kjartansson. Árið 1966 stofnaði Magnús Sigurðsson í Miklaholti sjóð til minningar um eiginkonu sína, Ásdísi M. Sigurðardóttur. Var stofnfé eitt hundrað þúsund krónur.
Tilgangur sjóðsins er að tryggja kirkjuhald að Miklaholti.
Saga Fáskrúðsbakkakirkju
Þegar Miklaholtskirkja var að falli komin upp úr 1930, Sýndist meirihluta sóknarfólks það ráðlegt að ný sóknarkirkja yrði reist þar sem hún væri nokkuð miðsvæðis í hreppnum og kom þá Fáskrúðabakki fyrst til greina, enda þá fyrir löngu byggt þar þing hús við þjóðveginn (1913).
Kirkjusmíðin hófst árið 1935 og þann 26. mai var hún vígð af þáverandi biskupi, sr. Jóni Helgasyni. Kirkjusmiður var Óskar Ólafsson, en hann var kvæntur Kristínu Þórðardóttur frá Miðhrauni. Með honum vann að kirkjusmíðinni Þorkell Guðbjartsson á Hjarðarfelli, sem lærlingur.
Kirkjan stendur í kirkjugarði sem þegar var allvandlega afgirtur, en sumarið 1976 var hann girtur að nýju og jafnframt stækkaður til austurs. Seinni part sumars 2009 var svo sett ný girðing, einnig var hellulagt framan við kirkjuna.
Fyrstur presta til að þjóna Fáskrúðabakkakirkju var sr. Þorsteinn Lúter Jónsson og var frá 12. júní 1934 til 1961.
Sáluhlið það sem nú er, smíðaði Jónas Þórólfsson í Lynghaga, og var það sett upp þann 30. sept. 1993. Fáeinum dögum síðar lést Jónas og var fyrstur manna borinn látinn um þetta hlið.
Klukkur kirkjunnar eru úr gömlu Miklaholtskirkjunni.
Kirkjunni hafa borist margar veglegar gjafir t.d frá Kvenfélaginu Liljunni og mörgum sveitungum. Björn bóndi Sigurgeirsson frá Svarfhóli mun í upphafi hafa lagt allnokkurt fé til smíði kirkjunnar og hann gaf þá tvo fimm arma kertastjaka sem eru á altari. Ennfremur gaf hann kirkjunni fyrsta orgelið.
Börn hjónanna Jóhanns Lárussonar og Kristjönu Björnsdóttir lengst af búandi á Litlu-Þúfu gáfu til minningar um foreldra sína fé sem notað var til þess að kaupa 14 glugga í kirkjuna. Benedikt Gunnarssonar myndlistamaður tók þetta verk að sér, þ.e. formun steindra glugga í forkirkju og kór.
Vegna fjölda gjafa á liðnum árum má Fáskrúðabakkakirkja teljast mjög vel búin að gripum.
Heimildir
(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:230-232)
(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:322-325)
(Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps: 2008-2010:23)
Myndir Sigurður A. Herlufsen