Löngufjörum er erfitt að lýsa fyrir þeim sem aldrei hafa kynnst þeim af eigin raun. Þar er umhverfið breytilegt og umskipting mikil, ekki aðeins eftir árstíðum heldur eftir tímum dagsins, hvort er flóð eða fjara, stórstreymt eða smástreymt, útfall eða aðfall, brim eða ládeyða, söngur fugla í fjöru og mó eða allar raddir hljóðnaðar.

longufjorur

Löngufjörur eru fyrir allri strönd Hnappadalssýslu og ná frá bænum Hítarnesi í Kolbeinsstaðarhreppi vestur að bænum Stakkhamri í Eyja- og Miklaholtshrepp.

Austast næst Hítarnesi er Kaldárós, þá tekur við Gamlaeyri 6-7 km langt sandrif, sem fer að mestu í kaf í stórbrimum, þá kemur Hraunsós út af Haffjarðará, síðan Hausthúseyjar (áður Haffjarðarey), en utan við þær er sandrif sem nefnist Hausthúsareki og fer ekki í kaf nema í stórflóðum. Næst kemur Þórisós og síðan Suðurnes og Melnes fram undan Skógarnesbæjum en mitt á milli þessara nesja er Skógarneshólmur þar sem áður var útræði og síðar verslunarstaður en nú löngu aflagður. Loks er Stakkhamarsós út af Straumfjarðará og þar vestur af Stakkhamarsnes.

Mest er þetta land þurrt um fjörur aðeins álar þar sem ár og lækir falla til sjávar en breytist í stór og mikil sjávarlón þegar flæðir. Úthafsöldur ná ekki þangað því utan við eru rif, eyjar og nes sem taka hvert við öðru en sjórinn streymir út og inn um þrönga ósa á milli þeirra.

Löngufjörur eru vinsæll staður fyrir hestamenn að ferðast um því hægt er að þeysa um fjörurnar. Öruggara er fyrir ókunnuga að njóta leiðsagnar kunnugra, því að sæta þarf sjávarföllum og fylgjast vel með gangi.

Flestir ferðalangar eiga góð samskipti við landeigendur en því miður verður stundum misbrestur þar á.

Blaðagrein frá 2006

Löngufjörur voru skráðar á Náttúruminjaskrá 1996

Heimildir

(Erlendur Halldórsson frá Dal: Snæfellingar og Hnappdælingar: 2000:180-182)

Mynd: Sigrún Ólafsdóttir