Kvenfélög í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Áður en Eyjahreppur og Miklaholtshreppur sameinuðust voru kvenfélög í báðum hreppunum.

Í Eyjahreppnum hét kvenfélagið Eyjan. Það var stofnað 22. júní 1947. Fyrstu stjórn þess skipuðu: Júlía Matthíasdóttir Söðulsholti formaður, Auðbjörg Bjarnadóttir Hausthúsum gjaldkeri og Kristjana Kristjánsdóttir Stóra-Hrauni ritari. Í lögum félagsins segir að það skuli starfa að mannúðar- og menningarmálum og styrkja bágstadda. Fjáröflun var m.a. dansleikjahald, hlutaveltur, bögglauppboð og kaffisala. Kvenfélagið átti hlut í félagsheimilinu að Dalsmynni. (Bjarmaland)

Upp úr 1990 var félagið orðið fámennt. Þegar hrepparnir tveir höfðu sameinast var því ákveðið að leggja félagið niður og félagskonur gengu í kvenfélagið Liljuna í Miklaholtshreppi.

Síðasti formaður kvenfélagsins Eyjunnar var Margrét Guðjónsdóttir Dalsmynni.

Kvenfélagið Liljan í Miklaholtshreppi var stofnað 24. júní 1928. Fyrstu stjórn þess skipuðu: Ingibjörg Guðmundsdóttir Miðhrauni formaður, Sigurborg Þorgilsdóttir Kleifárvöllum ritari og Ingveldur Jóhannsdóttir Litlu-Þúfu gjaldkeri. Í lögum félagsins stendur að það skuli líkna bágstöddum, efla heimilisiðnað, efla samvinnu kvenna og vinna að menningar- og framfaramálum í sveitinni. Kvenfélagið kom að byggingu félagsheimilisins Breiðabliki og hefur gefið því og kirkjunni á Fáskrúðarbakka fjölmargar gjafir.

20. júní 1959 gáfu þáverandi ábúendur Hofsstaða, hjónin Eggert Kjartansson og Sigríður Þórðardóttir, kvenfélaginu 4 hektara landsspildu undir skógrækt. Heitir reiturinn Másstaðabyrgi og fljótlega var farið að gróðursetja þar og var reiturinn að mestu fullplantaður upp úr 1960.

Í fyrstu aflaði kvenfélagið peninga með skemmtanahaldi, hlutaveltum og kaffisölu á Breiðabliki. Síðustu ár hefur kaffisala verið aðaltekjulind félagsins. Félagið hefur haldið mörg námskeið og staðið fyrir jólaskemmtunum og spilakvöldum fyrir íbúa hreppsins.

Starfsemi félagsins hefur breyst en ennþá eru í fullu gildi þau markmið félagsins að efla samvinnu kvenna, styrkja góð málefni og standa fyrir námskeiðum. Haldnir eru fundir u.þ.b. einu sinni í mánuði yfir veturinn. Einnig hittast félagskonur og aðrar konur vikulega á Breiðabliki yfir handavinnu og spjalli. Kvenfélagið sér um jólakaffi fyrir börn og fullorðna og annast auk þess þrif á Fáskrúðarbakkakirkju.

Núverandi stjórn félagsins:

Áslaug Sigvaldadóttir Lágafelli formaður, Katrín Gísladóttir Minni-Borg ritari, Katharina Kotschote Hofsstöðum gjaldkeri.