Margnota Snæfellsnes
Snæfellsnes hefur orð á sér fyrir frumkvæði í úrbótum umhverfismála; hefur m.a. fengið tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, var valið meðal 100 grænustu áfangastaða heims og hefur síðast en ekki síst borið alþjóðlega EarthCheck umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaganna síðan árið 2008. Þeirri vottun þarf að viðhalda með stöðugum framförum í átt að sjálfbærara samfélagi.
Eitt af því sem ógnar umhverfi okkar eru einnota umbúðalausnir, einkum úr plasti. Þar má nefna einnota innkaupapoka. Í hans stað má auðveldlega nota margnota poka án þess að lífsgæði skerðist. Notkun á margnota pokum hefur aukist með aukinni þekkingu á líftíma einnota plastumbúða og áhrifum þeirra á umhverfið. Við getum hins vegar gert enn betur varðandi aukna notkun margnota lausna, t.d. við innkaupin. Oft þarf ekki meira en hugarfarsbreytingu í daglegum athöfnum.
Næstu vikurnar mun verkefnið Margnota Snæfellsnes standa yfir og biðjum við þig kæri íbúi að taka virkan þátt, í vinnunni, á heimilinu eða á ferðinni. Sem framleiðendur og neytendur er það undir okkur komið að líta í kringum okkur, sjá hvað má fara betur og hvernig við getum unnið í sameiningu. Verum hagnýtari og fyrirmyndir fyrir hvort annað og komandi kynslóðir. Margnota lífstíll borgar sig margfalt fyrir samfélag, efnahag og umhverfi – þetta tvinnast allt saman! Hafir þú ábendingar um hvernig samfélagið gæti staðið sig betur í nýtingu á margnota pokum, umbúðum og ílátum, endilega sendu okkur tölvupóst á gudrun@nsv.is.
Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnisstjóri umhverfisvottunar.